Björgunarsveitarmenn á Suðurlandi höfðu í nógu að snúast í gær og stóðu margir þeirra á vaktinni samfleytt í yfir 20 klukkustundir. Óskað var eftir aðstoð við að ná í bíl sem erlendir ferðamenn höfðu fest við Núpafjallsenda í Fljótshverfi austan við Kirkjubæjarklaustur og stóð til að fara í þann leiðangur snemma morguns, en áður en til þess kom eða klukkan sjö í gærmorgun kom útkall vegna leitar að pilti á tvítugsaldri. Hann fannst eftir hádegi og fóru björgunarsveitarmenn að Núpafjallsenda til að sækja bílinn.
Það verkefni reyndist viðameira en talið var í fyrstu og þurfti viðbótarmannskap og tæki til að leysa það, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Í bílnum voru erlendir ferðamenn og voru þeir komnir með bílinn utan vega og hlutust töluverð landsspjöll af.
Björgunarsveitarmenn frá Kyndli á Kirkjubækarklaustri og Stjörnunni í Skaftártungu komu með bílinn og ferðamennina til byggða klukkan þrjú í nótt og var farið með þá á lögreglustöðina á Kirkjubæjarklaustri þar sem þeir voru yfirheyrðir. Ferðamennirnir báru fyrir sig að þeir hefðu ekið eftir slóða sem var merktur á landakorti.
Björgunarsveitamennirnir voru hvíldinni fegnir eftir þetta verkefni enda höfðu flestir þá verið að í yfir 20 klukkustundir samfleytt.
