Innlent

Þrjú og hálft ár fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertum dreng

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann um sextugt, Jón Sverri Bragason, til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertum dreng sem var á aldrinum þrettán til fimmtán ára þegar brotin voru framin. Að auki er manninum gert að greiða drengnum eina og hálfa milljón króna í bætur.

Héraðsdómur hafði áður dæmt manninn í fjögurra ára fangelsi en Hæstiréttur leit til þess við ákvörðun refsingar að hluti brotanna varðaði við þriðju málsgrein 202. greinar hegningarlaga en refsimörk hennar eru mun lægri en samkvæmt fyrstu málsgrein sama ákvæðis. Þá vantaði viðhlítandi skýringu á því hvers vegna tafir urðu á því að senda málið til ríkissaksóknara eftir að rannsókn lauk auk þess sem það dróst í rúma átta mánuði að ljúka gerð málsgagna.

Jón Sverrir tældi piltinn til kynmaka með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi hans af kynlífi og tölvufíkn, en Jón greiddi drengnum fyrir kynmökin með tölvuleikjum eða peningum.

Jón Sverrir fór sjálfur fram á að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar og fór hann fram á sýknu og til vara að refsing hans yrði milduð. Ákæruvaldið fór hins vegar fram á þyngingu refsingarinnar.

„Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, þó þannig að ekki er, að virtum gögnum málsins, fram komin sönnun þess að hann hafi brotið gegn A eins og lýst er í héraðsdómi fyrr en um vorið 2006," segir meðal annars í dómi Hæstaréttar.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×