Innlent

Sveppi með sex dvd-diska

Dvd-kóngurinn Sverrir Þór kemur við sögu á sex dvd-diskum fyrir þessi jól og er því réttnefndur dvd-kóngurinn.
Fréttablaðið/Valli
Dvd-kóngurinn Sverrir Þór kemur við sögu á sex dvd-diskum fyrir þessi jól og er því réttnefndur dvd-kóngurinn. Fréttablaðið/Valli

„Þetta er náttúrlega bara rugl," segir Sverrir Þór Sverrisson, grínisti með meiru.

Hann er réttnefndur dvd-kóngur þessara jóla því sex mynddiskar koma út fyrir þessi jól þar sem Sverrir kemur við sögu. Þrír Algjör Sveppi-diskar koma út, einn með leikritinu úr Íslensku óperunni, annar með barnaþáttunum af Stöð 2 og sá þriðji er síðan kvikmyndin Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið sem sló rækilega í gegn í kvikmyndahúsum borgarinnar.

Síðan er það mynddiskur með tvíeykinu Audda og Sveppa, svo Ameríski Draumurinn og loks Wipe Out-mynddiskur en þar keppir Sverrir Þór í þrautarkónginum fræga.

Sverrir segist ánægður með nafnbótina, dvd-kóngurinn, en bætir því við að hann kvíði stundum jólunum hvað þetta varðar.

„Maður veit ekkert hvað það kemur mikið út fyrir þau en þetta er allur skalinn í ár og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þetta er bara gaman og diskarnir eru mjög skemmtilegir hver á sinn hátt," segir Sverrir en Sveppa-myndin kemur út á fimmtudaginn og ætlar hann árita diskinn af því tilefni. Sverrir segir mikið aukaefni verða á disknum.

„Við Bragi leikstjóri erum miklir áhugamenn um aukaefni og reyndum að troða eins miklu af slíku efni á diskinn."-fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×