Innlent

Kærði stjórnendur Kaupþings en ekkert verður gert

Maður sem kærði stjórnendur Kaupþings til Ríkislögreglustjóra telur að þeir hafi nýtt sér fákunnáttu hans þegar honum var veitt gengislán. Kæran var send frá Ríkislögreglustjóra til Sérstaks saksóknara, sem ætlar ekki að aðhafast í málinu. Maðurinn biðlar til yfirvalda um að einstaklingar þurfi ekki að fjargviðrast í þessum málum sjálfir.

Í september á síðasta ári kærðu Ólafur Garðarsson og sambýliskona hans Nýja og gamla Kaupþing, Finn Sveinbjörnsson, þáverandi bankastjóra, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra til Ríkislögreglustjóra. Þau höfðu tekið 23 milljóna króna gengislán hjá Kaupþingi sem stökkbreyttist í 56 milljónir við fall krónunnar.

Sambýlisfólkið taldi að stjórnendur bankans hafi vísvitandi og með skipulögðum hætti stundað fjársvik gegn almenningi. Nýtt sér fákunnáttu viðskiptavina sinna og þannig haft af þeim fé á undanförnum árum.

Í kærunni er vísað til sömu ákvæða laga um vexti og verðtryggingu og dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána byggðu á. Einnig er vísað til 17. greinar laganna en í henni kemur fram að brotin geti varðað sektum. Þá er einnig vísað til almennra hegningarlaga. Í upphafi var kæran send efnahagsbrotadeild sem vísaði málinu til sérstaks saksóknara. Í desember kom svar - saksóknarinn hugðist ekki aðhafast í málinu þar sem ákvæði laga um vexti og verðtryggingu virtust ekki fela í sér að bannað væri að binda lánasamninga við erlenda mynt. Þessu var Hæstiréttur ósammála og nú skoðar efnahagsbrotadeild hvort tilefni sé til að höfða refsimál gegn þeim stjórnendum sem báru ábyrgð á gerð lánasamninganna.

Ólafur útilokar ekki að hann sendi kæruna aftur inn til efnahagsbrotadeildar.

Bragi Dór Hafþórsson, lögmaður, segir mikilvægt að skoðað verði hvort lánveitingarnir hafi í raun verið efnahagsbrot gegn almenningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×