Innlent

Fulltrúar íbúa taka viðtöl við bæjarstjóraefni

Oddur Helgi Halldórsson
Oddur Helgi Halldórsson
Nýr meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar nýtur aðstoðar fimm einstaklinga sem ekki tengjast meirihlutanum við ráðningu nýs bæjarstjóra.

Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar náði L-listinn hreinum meirihluta og segir Oddur Helgi Halldórsson, fyrrverandi oddviti flokksins og núverandi bæjarfulltrúi, hópinn, sem kallaður er hulduherinn, vera leynihóp og hann tákni þverskurðinn af þjóðfélaginu.

„L-listinn er mjög óvenjulegt framboð," segir Oddur. „Við vildum fá bæjarstjóra sem er samnefnari fyrir alla bæjarbúa. Hulduherinn var valinn af Capa-cent, ekki okkur sjálfum."

Leynihópurinn samanstendur af fimm manns úr bænum, hver þeirra er fulltrúi á sínu sviði: í Háskólanum, stjórnsýslunni, menningunni, frá atvinnurekendum og verkamönnum.

Spurður hvort nafnleynd hópsins sé ekki þversögn við opna og gegnsæja stjórnsýslu, segir Oddur það geta vel verið.

„Ég leyfði þeim að ráða þessu sjálfum," segir hann. „Þetta er alfarið í þeirra höndum."

Fimmmenningarnir tóku viðtöl við alla 53 umsækjendur, gáfu þeim númer og létu bæjarráð vita hvort mælt væri með viðkomandi eður ei. Hversu mikinn þunga hópurinn hefur í ákvörðuninni er ekki ljóst. Ráðningin verður tilkynnt á næstu dögum.

Fréttablaðið hafði samband við oddvita Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem ekkert höfðu heyrt af málinu.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×