„Það er erfitt að leggja mat á það en þetta skiptir verulegu máli varðandi samningastöðuna," segir Gylfi Magnússon, viðskipta- og efnahagsráðherra, spurður hvort álit ESA um að Íslendingar eigi að borga lágmarksinnistæður vegna Icesave, skaði ekki samningsstöðu Íslands gagnvart Hollandi og Bretlandi.
Sjálfur er Gylfi staddur í París núna en hann fundaði með ESA, sem er eftirlitsstofnun EFTA, í morgun. Þar var skiptst á upplýsingum en Gylfi segir að engar sérstakar viðræður hafi átt sér stað á þeim fundi.
Ríkisstjórnin fær tvo mánuði til þess að svara áliti ESA. Fallist ESA ekki á sjónarmið ríkisstjórnarinnar þá sendir eftirlitsstofnunin frá sér rökstutt álit, en það getur verið undanfari málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum.
„Ef okkur tekst að ljúka samningum við Breta og Hollendinga þá er þetta óþarft ferli," segir Gylfi en málið fellur sjálfkrafa niður náist samningar. Aftur á móti hefur það reynst ómögulegt að draga Hollendinga og Breta að samningaborðinu.
Aðspurður hvort dómur geti fallið hjá EFTA á meðan samningaviðræður standa yfir svarar Gylfi játandi.
„Það er mjög óþægileg staða sem kemur upp ef dómur félli án þess að samningar hefðu náðst," segir Gylfi.
Spurður hvort ESA sé með þessu að setja tímapressu á íslensk stjórnvöld til þess að klára þetta mál á næstu 12 mánuðum segir Gylfi að þetta sé ekki mikið meiri pressa en hefur verið á Íslandi undanfarið í þessu erfiða máli.
„Og það er gríðarlega mikill kostnaður, beinn og óbeinn, sem kemur af því að standa í þessu," segir Gylfi sem áréttar að lokum að ríkisstjórnin muni halda sjónarmiðum Íslands vel á lofti. Ríkisstjórnin þarf núna að svara ESA innan tveggja mánaða.