Innlent

Slepptu átján tonnum af vatni

Slökkviliðið var kallað út um klukkan hálf níu í gærkvöldi. Eldur logaði í mosa og sinu í hrauninu sunnan við Straumsvík og var mjög erfitt að komast að eldinum og því var óskað eftir aðstoð frá Landhelgisgæslunni.

Þyrla Gæslunnar sótti sjó í fötu sem hékk neðan úr henni og sleppti yfir eldinn. Áætlað er að hún hafi sleppt átján tonnum af vatni. Sjö slökkviliðsmenn voru á vettvangi með einn dælubíl og sexhjól. Slökkviliðsmenn notuðu sexhjólið sem er með litlum vatnstanki til að ferja vatn að eldinum.

Að sögn varðstjóra náði þyrlan að vinna töluvert á eldinum. Eldurinn var ekki mikill, en hann var staðbundinn og erfiður. Mikið af sprungum er á svæðinu og erfitt var fyrir slökkviliðsmenn að slökkva eld ofan í þeim. En að lokum tókst slökkviliðinu að koma stórum sérútbúnum bíl að eldinum.

Menn óttuðust að eldur í sprungum næði að dreifa úr sér en gróður á svæðinu var þurr. Reykur frá eldinum sást vel frá Reykjavík og íbúar í Kársnesi í Kópavogi urðu varir við brunalykt úti.

Engin byggð er nálægt svæðinu og því voru mannvirki aldrei í hættu . Ekki er vitað um upptök eldsins en ekki er útilokað að hann hafi kviknað af mannavöldum. Slökkvistarfi var lokið um klukkan ellefu í gærkvöldi og hafði þá staðið yfir í um þrjár klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×