Innlent

Vilja rýmka heimildir varðandi brot á virðisaukaskattskilum

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Nýverið var fallið frá kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóns Sigurðssonar og Hannesar Smárasonar eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi kyrrsetningu á eignum fjórða mannsins, Skarphéðins Bergs Steinarssonar.

Eignir fjórmenninganna voru kyrrsettar vegna meintra brota FL Group á lögum um virðisaukaskatt og var það talið í samræmi við nýja lagaheimild í tekjuskattslögum um að heimilt sé að kyrrsetja eignir til að tryggja að menn borgi virðisaukaskatt.

Þegar Skarphéðinn fór með kyrrsetninguna fyrir dómstóla komst Hæstiréttur hins vegar að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að heimildin í tekjuskattslögum næði ekki yfir virðisaukskatt. Fréttastofa innti fjármálaráðherra eftir því hvort til stæði að rýmka þessar heimildir svo þær tækju einnig til brota á virðisaukaskattskilum.

„Hæstiréttur hefur túlkað það þannig að það sé ekki nóg að hafa þessa sjálfstæðu heimild á einum stað í lögum, heldur þurfi að tilgreina hana í lögum um einstaka skattstofna og þá verður það að sjálfsögðu gert. Það er eindreginn ásetningur okkar að skattayfirvöld hafi þessar heimildir, þannig við gerum ráð fyrir því að leggja það fyrir þing í haust," segir Steingrímur.

Rétt er að geta þess að þótt þessi tiltekna kyrrsetning hafi verið felld úr gildi - þá hafa eignir Jóns Ásgeirs, meðal annars húseignir, glæsibifreiðar, jarðir og bankainnistæður, verið kyrrsettar vegna annarra mála - en honum og Pálma Haraldssyni er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem stórir eigendur Glitnis til að hagnast persónulega um tvo milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×