Lífið

Semur aftur fyrir Gauragang

Jón Ólafsson og Stefán Már Magnússon sjá um tónlistina í kvikmyndinni um Gauragang.
fréttablaðið/valli
Jón Ólafsson og Stefán Már Magnússon sjá um tónlistina í kvikmyndinni um Gauragang. fréttablaðið/valli
„Við sitjum bara sveittir með hljóðfærin að taka upp,“ segir Jón Ólafsson tónlistarmaður en hann ásamt Stefáni Má Magnússyni gítarleikara vinna nú að upptökum á kvikmyndatónlist fyrir bíómyndina Gauragang sem áætlað er að frumsýna á annan í jólum.

Jón ætti að vera orðinn vel kunnur bókinni sem kom út fyrir rúmum tveimur áratugum því þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem hann kemur nálægt verkinu. „Ég er sennilega búinn að koma að öllu sem hefur verið gert varðandi Gauragang, nema að sjálfri bókinni,“ segir Jón og hlær, en hana skrifaði Ólafur Haukur Símonarson. Hljómsveit Jóns, Ný dönsk, flutti alla tónlistna í fyrstu uppfærslu Gauragangs árið 1994. Jón samdi svo tónlistina fyrir framhaldsverkið „Meiri gauragangur“ fjórum árum síðar ásamt Ólafi Hauki og fyrr á árinu tók hann að sér tónlistarstjórn í uppfærslu Borgarleikhússins á leikritinu. Þrátt fyrir að hafa samið fjölda laga fyrir sýningarnar segir Jón það ekki nýtast sér við gerð myndarinnar. „Kvikmyndin er ákaflega ólík leikritinu og byggir vitaskuld á bókinni en ekki leikritinu. Nú erum við að semja stemningstónlist sem á undirstrika það sem áhorfandinn sér á hvíta tjaldinu,“ segir Jón.

Jón mælir sterklega með kvikmyndinni. „Hún er alveg frábær og hinir ungu leikarar standa sig firna vel,“ segir hann og heldur varla vatni yfir hæfileikum unga fólksins. En hvort telur Jón að hann sé að elta Gauraganginn eða Gauragangurinn að elta hann? „Við eltum skottið á hvor öðrum,“ svarar hann.

-ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.