Innlent

Endurskoðunarákvæði vantar í fiskveiðistjórnarlögin

Í lögum um fiskveiðistjórnun segir að ákvörðun um kvótaafnám þurfi stuðning Hafrannsóknastofnunar. Fréttablaðið/Vilhelm
Í lögum um fiskveiðistjórnun segir að ákvörðun um kvótaafnám þurfi stuðning Hafrannsóknastofnunar. Fréttablaðið/Vilhelm
Sjávarútvegur Í lög um fiskveiðistjórnun vantar ákvæði sem gera ráðherra kleift að endurskoða grundvöll upphaflegrar kvótaúthlutunar, svo sem vegna breytinga á útbreiðslusvæði tegunda, breyttra útgerðarhátta, vistkerfisbreytinga eða breyttra veiðiaðferða. Þetta kemur fram í áliti sem Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður vann fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið í júlí í fyrra.

Óskað hafði verið eftir áliti á því hvaða leiðir væru færar í afnámi kvótaúthlutunar vegna úthafsrækju og skötusels. Niðurstaða Ástráðs er að lögin bindi hendur ráðherra í því að sé ákveðinn heildarafli, þá beri að ráðstafa honum með úthlutun veiðiheimilda. „Séu veiðar hins vegar gerðar frjálsar er ráðherra ekki heimilt að takmarka þær að öðru leyti,“ segir í álitinu.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra kynnti fyrir helgi ákvörðun sína um að gefa rækjuveiðarnar frjálsar næsta fiskveiðiár. Í áliti Ástráðs segir að það verði að óbreyttum lögum þó tæpast gert nema Hafrannsóknastofnunin geri tillögu um slíkt. Hún leggur hins vegar til sjö þúsund tonna aflamark á næsta fiskveiðiári. „Ráðherra þyrfti að undirbyggja slíka ákvörðun vel og því skemur sem tegund yrði haldið utan kvóta því viðkvæmari yrði ákvörðunin fyrir gagnrýni,“ segir í álitinu. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×