Innlent

Alþjóðleg nefnd rannsakar banaslysið á Grundartanga

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Alþjóðleg rannsóknarnefnd kemur til landsins á morgun til að rannsaka banaslysið sem varð í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga á þriðjudag. Forstjóri fyrirtækisins vonast til að fá betri upplýsingar um orsakir slysins þegar líður á vikuna.

Þrítugur maður lést þegar hann varð fyrir sprengingu í einum af þremur ofnum Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga 29. júní. Hann lætur eftir sig eina dóttur.

„Alþjóðleg rannsóknarnefnd er á leiðinni til landsins á morgun og mun hefja störf við komuna. Við erum að vonast til að fá einhverjar línur um orsakir slysins þegar líður á vikuna," segir Einar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Járnblendiverksmiðjunnar.

Fyrirtækið rekur þrjá ofna. Eftir slysið voru hinir tveir ofnarnir stilltir á lágmarksframleiðslu en á miðvikudagskvöldið var tekin ákvörðun að hefja framleiðslu aftur á tveimur þeirra.

„Erum núna að keyra tvo og þrjú í fulla framleiðslu. Það er búið að einangra þetta atvik við þennan eina ofn. En staðan þar er sú að ofninn er enn aflokaður," segir Einar.

Spurður um fjölda alvarlegra slysa segir Einar ekki hafa nákvæmar tölur um það á takteinunum. „Það hafa verið fá alvarleg slys. En við höfum verið með nokkur minniháttarslys í gegnum árin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×