Innlent

Bankaráðsseta Láru geri hana vanhæfa

MYND/Pjetur

Mál níumenninganna svokölluðu var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Verjandi fjögurra þeirra fór fram á að settur ríkissaksóknari myndi víkja vegna tengsla hennar við Alþingi.

Níumenningarnir eru meðal annars ákærðir fyrir árás á Alþingi í tengslum við Búsáhaldabyltinguna. Fyrirtaka átti að fara fram í málinu í morgun en Ragnar Aðalsteinsson verjandi fjögurra sakborninga fór fram á að Lára V. Júlíusdóttir settur saksóknari myndi víkja meðal annars vegna tengsla hennar við Alþingi.

Sagði Ragnar setu hennar í bankaráði Seðlabankans gera það að verkum að hún væri vanhæf í málinu, þar sem Alþingi hefði kosið hana til setu í ráðinu en þar gegnir hún formennsku. Lára veitti andsvar og sagði Seðlabankann meðal annars vera sjálfstæða stofnun, ekkert vinnusamband væri á milli bankaráðsins og Alþingis.

Þetta er í annað sinn sem Ragnar fer fram á frávísun í málinu, en um miðjan ágúst, þegar málið var tekið fyrir fór Ragnar fram á að Pétur Guðgeirsson dómari viki sæti. Sagði hann aðkomu lögreglu meðal annars gera það að verkum að dómari væri vanhæfur.

Þessu var dómari ekki sammála, og Hæstiréttur tók undir það.

Nokkuð rólegri stemmning var við þinghaldið í morgun en síðast þegar málið var tekið fyrir, en þá kom til átaka milli þeirra sem staddir voru í héraðsdómi og lögreglu sem þá var með fjölmennt lið á vettvangi. Lögregla var hinsvegar hvergi sjáanleg í dómshúsinu í morgun, að undanskildum tveimur lögregluþjónum sem sátu úti í bíl fyrir utan dómshúsið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×