Innlent

Prjónar 17 kílómetra trefil

SB skrifar

Kona á Siglufirði fékk þá hugdettu að prjóna 17 kílómetra langan trefil sem næði milli miðbæjar Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hugmyndin varð að veruleika og nú þegar er trefillinn orðinn rúmlega 6 kílómetra langur.

Fríða Gylfadóttir vinnur í banka en fær oft óvenjulegar hugdettur. Hún segir að þegar hún hafi heyrt að Héðinsfjarðargöng yrði að veruleika hafi hún ákveðið að slá til og prjóna trefilinn langa.

Héðinsfjarðargöng verða mikil samgöngubót fyrir íbúa Fjallabyggðar. Göngin munu tengja Siglufjörð og Ólafsfjörð og verða rúmir ellefu kílómetrar að lengd. Trefill Fríðu verður nokkuð lengri, eða 17 kílómetrar, enda nær hann frá miðbæjarkjarna hvers bæjar og tengir þá á táknrænan hátt saman.

Fríða hvetur alla sem vilja leggja verkefninu lið að hafa samband og taka upp prjónana. Nú þegar hefur fólk frá öllum landshlutum og jafnvel öðrum löndum lagt lóð á vogarskálarnar. Hægt er að fylgjast með framgangi mála á heimasíðu Fríðu www.frida.is. Að loknu átakinu verður trefillinn svo bútaður niður og seldur í þágu góðgerðarmála - enda gerður af einstakleg góðum hug.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×