Innlent

Rannsókn á banaslysi: Beðið eftir að ofninn kólni

Rannsókn á því hvað olli banaslysinu í járnblendiverksmiðjunni í Grundartanga fyrr í vikunni er enn ólokið. Sprenging var í einum ofna verksmiðjunnar en ekki er hægt að hefja rannsókn fyrr en ofninn kólnar.

Karlmaður á fertugsaldri lét lífið eftir að sprenging varð í ofni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga á þriðjudag.

Slysið á þriðjudag er rakið til þess að sprenging varð í einum ofni verskmiðjunnar með þeim afleiðingum að maðurinn varð fyrir eldi og málmslettum.

Nú er beðið eftir því að ofninn kólni til að hægt sé að hefja rannsókn.

Tveir norskir sérfræðingar frá Elkem í Noregi eru staddir hér á landi og þá er einnig von á tveim sérfræðingum til viðbótar til aðstoða við rannsóknina.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að flest slys sem orðið hafa við málmblendiofna af þessu tagi megi rekja til bilunar í kælikerfi. Ekkert liggi þó fyrir en málin ættu að skýrast í næstu viku.

Þetta er í fyrsta sinn sem sem alvarlegt vinnuslys á sér stað í verksmiðjunni. Rangt var farið með í hádegisfréttum á Bylgjunni í dag þar sem sagt var að í ágúst í fyrra hafi ungur maður brennst illa á báðum fótum eftir að hann rann til á gólfi verksmiðjunnar. Það slys varð í álverinu á Grundartanga en ekki í járnblendinu og beðist er velvirðingar á mistökunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×