Innlent

Hef ekki ráðið mig áður til Bandaríkjanna

Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint.
Sigurður Böðvarsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, segir í yfirlýsingu að Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hafi tekist að gera lítið úr læknastéttinni og ítrekuðum viðvörunum lækna og áhyggjum af þróun heilbrigðismála hér á landi.

Sigurður er á leið til Bandaríkjanna eftir að hafa starfað á krabbameinsdeild Landspítalans í níu ár frá því hann lauk sérnámi. Hann segir launin svipuð þeim sem dóttir hans fær fyrir að selja kleinur og kaffi.

Í samtali við Pressuna í dag segir Álfheiður að Sigurður sé í fjórða skiptið að tilkynna um flutning sinn til Bandaríkjanna. „Nú þekkir Álfheiður aðstæður mínar vafalaust betur en ég, en sjálfan rekur mig ekki minni til að ég hafi áður ráðið mig til starfa sem krabbameinslæknir á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum," segir Sigurður.

„Eins og fram kemur í viðtali við mig í Læknablaðinu nýlega voru drög að þessum fyrirhuguðu vistaskiptum mínum lögð fyrir þremur árum eða árið 2007 og hafa því lítið með hrun eða kreppu hér á landi að gera. Mig langar einfaldlega að skipta um vinnu sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi," segir Sigurður og heldur áfram. „Hugsanlega eru það þessi þrjú ár eða talan þrír sem ruglar ráðherra í ríminu og fær hana til að komast að rangri niðurstöðu í fljótfærni eins og henni er tamt."

Hann segir að Læknafélag Íslands hafi á undanförnum árum ítrekað varað við þeirri þróun sem orðið hefur í mönnun lækna hér á landi. Þeim hafi fækkað um 10% á einu ári. „Þótt Álfheiði hafi með ástæðulausum skætingi sínum í minn garð tekist að bæta við enn einu vindhöggi í safn sitt verður ekki hjá því litið að með ummælum sínum hefur henni á einu bretti tekist að gera lítið úr læknastéttinni og ítrekuðum viðvörunum lækna og áhyggjum af þróun heilbrigðismála hér á landi. Það verður að skoðast sem eftirtektarverður árangur hjá æðsta yfirmanni heilbrigðismála á landinu."






Tengdar fréttir

Krabbameinslæknir rétt yfir launum kaffibarþjóns

Sigurður Böðvarsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, er á förum til Bandaríkjanna eftir að hafa starfað á krabbameinsdeild Landspítalans í 9 ár frá því hann lauk sérnámi. Hann segir í samtali við Læknablaðið að tímakaup sitt fyrir vaktir séu svipað og launin sem dóttir hans fær fyrir að selja kleinur og kaffi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×