Innlent

Guðrún fær lyklavöld í Kópavogi

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Guðrún Pálsdóttir, nýr bæjarstjóri í Kópavogi, tekur við lyklavöldum á skrifstofu bæjarstjóra klukkan tíu í dag, af Gunnsteini Sigurðssyni sem verið hefur bæjarstjóri í tæplega ár. Þar áður var Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs.

Ný bæjarstjórn tók við völdum í gær með nýjum meirihluta Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Næstbesta flokksins og Lista Kópavogsbúa. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem hafa verið við völd í bænum í 20 ár eru nú komnir í minnihluta.

Guðrún Pálsdóttir var kjörin nýr bæjarstjóri á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í gær með sjö atkvæðum. Fjórir sátu hjá.

Í nýjum málefnasamningi er m.a. kveðið á um að úttekt verði gerð á fjármálum Kópavogs, sett verði á fót Hugmyndahús Kópavogs, leitað verði eftir samvinnu við menntamálaráðuneytið um stofnun nýs framhaldsskóla í Kópavogi og að könnuð verði hagkvæmni þess að Kópavogsbær komi að uppbyggingu hálfkláraðs húsnæðis í bænum og komi á traustum leigumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×