Innlent

Landsbankinn mun þurfa að afskrifa nokkur hundruð milljónir

Landsbankinn mun þurfa að afskrifa nokkur hundruð milljónir króna vegna sölu á dreifingarfyrirtækinu Parlogis. Bankinn lánaði fyrrverandi eigendum félagsins nær allt kaupverð þess og tók það svo yfir þegar móðurfélagið varð gjaldþrota á síðasta ári.

Parlogis annast hýsingu og dreifingu á lyfjamarkaði. Félagið var áður dótturfélag Atorku en var selt árið 2007 með skuldsettri yfirtöku til Dreifingarmiðstöðvarinnar sem var í eigu sömu aðila og Penninn. Svo virðist sem Landsbanki Íslands hf. hafi lánað þessum aðilum fyrir nær öllu kaupverðinu þar sem eigið fé Parlogis var aðeins um 2% í lok sama árs. Eigendur félagsins greiddu sér þó út rúmlega 160 milljónir í arð árið eftir. Á síðasta ári varð Dreifingarmistöðin gjaldþrota. Landsbankinn leysti þá til sín allt hlutafé félagsins en í dag eiga Vestia, dótturfélag Landsbankans, 80% og Atorka 20% í félaginu. Landsbankinn breytti tæplega 740 milljóna króna skuld Parlogis í hlutafé og Atorka tæplega 520 milljónum.

Í sölugögnum kemur fram að 73% af tekjum Parlogis er vegna sölu og dreifingar á vörum frá Icepharma. Icepharma var áður í eigu Atorku, líkt og Parlogis, og hafa fyrirtækin unnið náið saman.

Í gögnunum kemur einnig fram að samningurinn milli félaganna er uppsegjanlegur í lok næsta árs. Meirihluti tekna þess eru því ótryggar eftir að samningurinn rennur út. Icepharma er því í þeirri stöðu að vera nær eini mögulegi kaupandi félagsins en Landsbankinn er einnig viðskiptabanki Icepharma.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum munu skuldir Parlogis við bankann, sem standa í dag í um einum milljarði, flytjast yfir til nýs eiganda og ekki verða afskrifaðar. Eftir stendur þó að skuldbreyting lána yfir í hlutafé fæst ekki greidd að fullu með söluandvirði og því er allt útlit fyrir að Landsbankinn þurfi að afskrifa nokkur hundruð milljónir króna vegna sölu á félagi sem er nú í faðmi bankans í annað sinn á þremur árum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum voru tíu aðilar sem fengu sölugögnin en nú standi eftir eitt tilboð í félagið. Kristján Jóhannsson, stjórnarformaður Icepharma, vildi ekki svara því hvort Icepharma eigi það tilboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×