Innlent

Sakar fyrrverandi ráðherra um stjórnarskrárbrot

Höskuldur Kári Schram skrifar
Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður.
Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður.

Sjávarútvegsáðherra ber samkvæmt lögum að gefa veiðar frjálsar séu útgefnar veiðiheimildir í ákveðnum fisktegundum ekki nýttar. Þetta er mat Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns. Hann sakar fyrrverandi sráðherra um að hafa virt lögin að vettugi og sýnt einbeittan brotavilja enda hafi það legið fyrir í mörg ár að úthafsrækjustofninn hafi verið vannýttur.

Veiðar á úthafsrækju verða gefnar frjálsar á næsta fiskveiðiári samkvæmt ákvörðun sjávaútvegsráðherrar sem kynnt var á föstudag.

Útgerðarmenn hafa mótmælt þessari ákvörðun og telja með henni sé ráðherra óbeint að innkalla veiðiheimildir og grafa þannig undan kvótakerfinu. Þeir ætla að funda með ráðherra í dag vegna málsins.

Rækjuafli hefur minnkað stórlega á undanförnum árum og það er mat Hafrannsóknarstofnunar að stofninn sé vannýttur. Dæmi eru um að útgerðir nýti rækjukvótann einungis til að auka framsalsheimildir í öðrum fisktegundum.

Útgerðarmenn benda á að mikið tap hafi verið á rækjuveiðum fyrir nokkrum árum og því hafi dregið úr afla. Olíuverð hafi þá verið mjög hátt og afurðaverð lágt. Á yfirstandandi fiskveiðiári bendi hins vegar allt til þess að kvótinn verði fullnýttur.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, skrifar um málið á heimasíðu sinni í dag en Kristinn sat í sjávarútvegsnefnd Alþingis í átta ár, þar af eitt sem formaður. Kristinn bendir á - að ákvörðun ráðherra sé í fullu samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Þegar stofn sé vannýttur beri ráðherra að heimila frjálsar veiðar.

Kristinn furðar sig á því hvers vegna þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrr enda hafi það legið fyrir í mörg ár að úthafsrækjukvótinn hafi verið vannýttur. Beinir hann orðum sínum til fyrrverandi sjávarútvegráðherra og segir orðrétt:

"Í störfum sínum hafa þeir sýnt einbeittan brotavilja fyrir LÍÚ varðandi úthafsrækjuna og gengið að ástæðulauau gegn skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. "

Árni M. Matthíesen gegndi embætti sjávarúvegráðherra árunum 1999 til 2005 og Einar K. Guðfinnsson, frá árinu 2005 til 2009. Steingrímur J. Sigfússon gengdi embættinu í tvo mánuði á síðasta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×