Innlent

Lilja Mósesdóttir: Fólki ekki skylt að greiða af lánum sínum

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar og stjórnarþingmaður, segir fólki ekki skylt að greiða af lánum sínum í samræmi við tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þetta er þvert á skoðun ráðherra í ríkisstjórn, sem sagði tilmælin sanngjörn.

Hersing manna úr æðstu stöðum íslenska fjármálakerfisins mætti á sameiginlegan fund tveggja þingnefnda vegna hinna ólöglegu gengislána í morgun. Þar á meðal viðskiptaráðherra, aðstoðarseðlabankastjóri, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fulltrúi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, menn frá Hagsmunasamtökum heimilanna og fleiri. Fundarefnið voru tilmæli Seðlabanka og fjármálaeftirlits - sem virðast hreint ekki hafa fallið í kramið hjá, Lilju Mósesdóttur, formanni viðskiptanefndar og þingmanni Vinstri grænna.

„Það er alveg skýrt að lántakendur njóta vafans. Þeir sem hafa tekið bílalán þurfa ekki að fylgja tilmælum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans," segir Lilja.

Með öðrum orðum, að hafa tilmælin að engu. Það er þvert á yfirlýsingu flokkssystkina hennar í ríkisstjórn - en ekki var annað á þeim að heyra en að þau teldu þetta sanngjarna leið.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er afar ósáttur við tilmælin - og finnst stjórnvöld ekki forgangsraða í þágu almennings. Hún segir ríkisstjórnina ekki vera norræna velferðarstjórn eins og hún hefur gefið sig út fyrir að vera.

Fyrst og fremst erlendir kröfuhafar tapa verði upphaflegir samningsvextir látnir gilda á ólöglegum gengislánum, skv. fréttum Stöðvar 2. En aðeins ef byrðin verður létt, segir Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi.

„Þegar byrðarnar þyngjast fellur hver aukakróna á ríkissjóð. Það er ekki hægt að láta þessar skuldir hverfa, heldur bara velta þeim af herðum skuldara og yfir á herðar allra Íslendinga," segir Franek.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×