Innlent

Össur undirritaði tvísköttunarsamning við Króatíu

Össur og Gordan Jandrokovic forseti Króatíu.
Össur og Gordan Jandrokovic forseti Króatíu.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fundi með utanríkisráðherra Króatíu, Gordan Jandrokovic, og forseta landsins, Ivo Josipovic, í Zagreb þar sem utanríkisráðherra er í opinberri heimsókn. Þá heimsótti Össur króatíska þingið og ræddi við forseta þess.

Á fundi utanríkisráðherranna voru rædd tvíhliða samskipti ríkjanna, umsókn Íslands og Króatíu um aðild að Evrópusambandinu og samstarf innan alþjóðastofnana, m.a. Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Þá gerði utanríkisráðherra grein fyrir stöðu efnahagsmála á Íslandi, m.a. samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í lok fundarins undirrituðu utanríkisráðherrarnir tvísköttunarsamning milli ríkjanna

Bæði utanríkisráðherra og forseti Króatíu lýstu áhuga á samstarfi við Íslendinga í jarðhitamálum en fyrirhuguð jarðhitaverkefni í Króatíu bjóða upp á talsverða möguleika að nýta íslenska reynslu og þekkingu. Var utanríkisráðherra í dag viðstaddur undirritun samings verkfræðistofunnar Eflu og Energy Institute Hrovje Poža-stofnuninnar um ráðgjöf í jarðhitamálum.

Á morgun, miðvikudag, kynnir Össur sér starfsemi fiskeldisfyrirtækis á eyjunni Ugljan áður en haldið verður til Búdapest þar sem síðari hluti heimsóknar hans fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×