Innlent

Facebook lokar á Jón Gnarr

„Í einlægni vildi borgarstjóri gleðja borgarbúa með sniðugu myndbandi en svo virðist sem forsvarsmönnum Facebook sé ekki skemmt," segir Heiða Kristín Helgadóttir, aðstoðarmaður Jóns Gnarrs, borgarstjóra Reykjavíkur.

Jón hefur ekki lengur aðgang að dagbók borgarstjórans sem finna má á samskiptavefnum Facebook.

Hann fékk tilkynningu seint í gær um að það væri búið að loka fyrir aðganginn að dagbókinni en engin ástæða var tíunduð í bréfinu. Heiða Kristín telur að ástæðan fyrir því að það var lokað fyrir aðganginn hafi verið myndband sem Jón setti inn á síðuna í gær.

Það er grínmyndband með Rick Astley og hefur farið sigurför um netheima. Aftur á móti er myndbandið höfundarvarið.

„Við erum búin að senda þeim bréf og reyna að útskýra málið en þeim virðist ekki vera skemmt," segir Heiða Kristín um hörð viðbrögð forsvarsmanna Facebook. Heiða segir borgarstjórann hafa sett myndbandið í sakleysi sínu inn á vefinn og ekki áttað sig á því að um höfundarvarið efni væri að ræða.

Aðspurð hvernig borgarstjórinn bregðist við fái hann ekki aftur aðgang að dagbókinni svarar Heiða því til að þá þurfi hann að stofna nýja dagbók.

Það sé hinsvegar synd í ljósi fjöldans sem hefur tekið dagbók borgarstjórans með opnum örmum en alls hafa 33 þúsund manns gerst aðdáendur hennar.

Síðan er ennþá opin en Jón getur ekki uppfært hana lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×