Innlent

Blés ekki í Vuvuzela-lúðurinn - bryður íbúfen til að slá á sársaukann

Andri Snær er ennþá mikið bólginn eftir að köttur í nágrenninu beit hann.
Andri Snær er ennþá mikið bólginn eftir að köttur í nágrenninu beit hann.
„Ég var ekkert að blása í lúðurinn, ég notaði hann til að banka í gólfið til að ná kettinum út svo ég þyrfti ekki að vera á fjórum fótum að ná honum út," segir Andri Snær Njarðarson, íbúi í Fellunum í Reykjavík.

Í frétt á Vísi í gær sagði Andri Snær að hann hefði notað Vuvuzela-lúður til að ná ketti út úr íbúð sinni sem hafði farið þangað í óleyfi. Einhverjir kunnu að hafa misskilið Andra og haldið að hann hafi verið að blása í lúðurinn á köttinn - en svo var ekki.

Andri segir að höndin á sér sé mikið bólgin eftir að kötturinn beit hann. „Fólk heldur að ég sé að gera þetta út af vorkunn, höndin á mér er stökkbólgin þó svo að myndirnar sýna það kannski ekki vel, ég á því miður ekki betri myndavél," segir Andri sem fór þó í vinnuna í dag. „Ég er bara búinn að vera bryðja íbúfen til að slá á mesta sársaukann."

Hann hefur ekki heyrt í eigendum kattarins sem er svartur með rauða ól. „Ég vonast til þess að heyra í þeim ef að þeir frétta af þessu. Ég skora þá á þá að hafa samband. Ég er ekkert reiður út í þá, auðvitað er þetta bara köttur. Þetta er bara leiðinlegt því þetta er ekki fyrsta skiptið sem það er köttur hérna inni, og því miður endaði þessi heimsókn með því að hann beit mig."

Margir hafa haft samband við Andra í dag og sagt honum sambærilegar sögur. „Flestir sem ég hef talað við eru sammála um að það sé kominn tími til að setja einhverjar reglur um þetta, en það eru mismunandi skoðanir um hvað eigi að gera. En það eru allir sammála um að það eigi að gera eitthvað," segir hann.






Tengdar fréttir

Endaði sársvangur upp á slysó eftir eltingaleik við kött í íbúð sinni

„Ég reyndi að króa köttinn af með Vuvuzela-lúðri sem ég fann hérna inn í stofu, en hann vildi ekki fara út,“ segir Andri Snær Njarðarson, íbúi í kjallaraíbúð í Múlunum í Reykjavík. Þegar hann kom heim til sín í hádegishléi í vinnu í dag, til að fá sér að borða, heyrði hann bjölluhljóð inn í herbergi hjá sér. Hann áttaði sig fljótlega á því að köttur úr nágrenninu hafði komist inn í íbúðina. Eftir mikinn eltingaleik við köttinn endaði hann á því að bíta og klóra Andra Snæ sem þurfti að fara upp á slysadeild og fá stífkrampasprautu. Kötturinn pissaði í rúmið hans og braut nokkra muni inn í stofu hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×