Innlent

Sjúkraflugvél verður í Eyjum á Þjóðhátíð

Nokkrir hressir kappar á leið á Þjóðhátíð í Eyjum. Mótshaldarar búast nú við fleiri gestum en nokkru sinni fyrr.
Nokkrir hressir kappar á leið á Þjóðhátíð í Eyjum. Mótshaldarar búast nú við fleiri gestum en nokkru sinni fyrr. Mynd/Heiða Helgadóttir

Sjúkraflugvél verður staðsett í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra fól nýlega Sjúkratryggingum Íslands að semja við Mýflug hf. um veru vélarinnar yfir helgina, en kostnaðarauki vegna þessa er 725 þúsund krónur. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins.

„Eðlilegt er að fullt viðbúnaðarstig sé í Vestmannaeyjum þessa helgi, þegar íbúafjöldi margfaldast. Ákvörðunin er tekin í samræmi við mat á aðstæðum," segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. Á dögunum bötnuðu samgöngur við Vestmannaeyjar með opnun Landeyjahafnar sem gæti haft í för með sér aukinn gestafjölda í Eyjum um verslunarmannahelgina.

Samkomulagið við Mýflug hf. felur í sér að frá hádegi föstudaginn 30. júlí til miðnættis mánudaginn 2. ágúst verður Chieftainvél Mýflugs staðsett í Vestmannaeyjum til sjúkraflutninga. Miðað er við það að Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja beri ábyrgð á og útvegi sjúkraflutningamenn eða aðra heilbrigðisstarfsmenn ef þörf krefur, til sjúkraflutninga með Chieftainvélinni meðan vélin verður staðsett í Vestmannaeyjum.

Mýflug hefur annast sjúkraflug á Vestmannaeyjasvæði frá Akureyri í kjölfar þess að Flugfélag Vestmannaeyja, sem áður hafði um skeið sinnt fluginu, missti flugrekstrarleyfi sitt.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×