Innlent

Ýsukvóti hefur minnkað um helming

Ýsukvóti hefur minnkað um nærri helming á síðustu tveimur árum eða um rúmlega 40 þúsund tonn. Sjávarútvegsráðherra segir rétt að draga tímabundið úr sókn í ýsu til að styrkja stofninn.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, kynnti í gær ákvörðun um heildarkvóta á komandi fiskveiðiári. Hemilt verður að veiða 50 þúsund tonn af ýsu og minnkar kvótinn um 13 þúsund tonn á milli ára. Á fiskveiðiárinu 2008 til 2009 var kvótinn 93 þúsund tonn og hefur því minnkað um nærri helming á tveimur árum.

Í skýrslu hafrannsóknarstofnunar kemur fram að fara verði mjög varlega í veiðum á ýsu á næstum árum þar sem stofninn eigi nú undir högg að sækja. Sjávarútvegsáðherar segir að ýsustofninn sé þó ekki hruninn.

„Nei hann er ekki hruninn en þolir ekki nema takmarkaða veiði en það er aftur aukið í þorskinum. En það er talið rétt og nauðsynelgt að aðeins að draga úr sókn í ýsu," segir Jón.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, tekur í sama streng.

„Við fengum gríðarlega stóran ýsuárgang, sérstaklega 2003 árganginn. Hann er sá alstærsti sem hefur sést. Ýsuveiði var mjög mikil og hefur verið undanfarin ár. Þetta er í sögulegu samhengi ekki lítill ýsuafli en auðvitað er það mjög slæmt og við sjáum fram á að ýsustofninn sé enn að minnka en hann er ekki í neinni hættu. Þetta er bara náttúran þetta sveiflast til," segir Friðrik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×