Innlent

Slökkvistarf enn í fullum gangi - Þyrlan í aðalhlutverki

Frá vettvangi.
Frá vettvangi.
Enn logar talsverður eldur í gróðri sunnan við Straumsvík. Sjö slökkviliðsmenn eru á vettvangi með einn dælubíl og sexhjól. Aðgengi að svæðinu er mjög slæmt og nota slökkviliðsmenn því sexhjólið sem er með litlum vatnstanki til að ferja vatn á staðinn.

Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar búin að fara fimm ferðir yfir svæðið en búið er að hengja vatnsfötu við þyrluna. Hún nær í vatn í sjóinn og hellir yfir svæðið úr lofti. Að sögn varðstjóra hefur sjórinn úr þyrlunni náð að slá svolítið á eldinn.

Hann segir jafnframt að eldurinn sé ekki mikill, en hann sé staðbundinn og erfiður. Mikið af sprungum sé á svæðinu og erfitt sé fyrir slökkviliðsmenn að slökkva allan eld ofan í sprungum. Ef ekki næst að slökkva eldinn ofan í sprungum getur hann varað í marga daga og dreift úr sér. Gróður á svæðinu er þurr.

Reykurinn frá eldinum sést vel frá Reykjavík, ef horft er í átt að Straumsvík. Þá hafa íbúar Kársnessins í Kópavogi orðið varir við brunalykt úti. Varðstjóri segir að engar tilkynningar hafa borist vegna þess.

Enginn byggð er nálægt svæðinu og ekki er talin mikil hætta á að eldurinn nái að breiða úr sér.

Ekki er vitað um upptök eldsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×