Lífið

Snorri spilar á South By Southwest

Snorri spilar á tónlistarhátíðinni South By Southwest í Texas á næsta ári.
Snorri spilar á tónlistarhátíðinni South By Southwest í Texas á næsta ári.
„Þetta verður mjög gaman,“ segir Snorri Helgason sem spilar á tónlistarhátíðinni South By Southwest í Texas næsta vor. Hljómsveitin Benni Hemm Hemm spilar einnig á hátíðinni, sem er mjög þekkt á meðal tónlistaráhugamanna.

„Ég fór einu sinni með Sprengjuhöllinni og það var geðveikt gaman. Þetta er mjög skemmtileg hátíð og ég hlakka mikið til,“ segir Snorri og er sammála því að hátíðin gæti verið mikill stökkpallur fyrir hann sem sólótónlistarmann. „Þetta er fáránlega stór hátíð og maður þarf að vera heppinn til að það verði eitthvað úr þessu því það eru tuttugu þúsund bönd sem koma fram þarna.“

Snorri er nýbyrjaður á þriggja vikna tónleikaferðalagi um Kanada og var staddur í Nýfundnalandi þegar Fréttablaðið hafði samband við hann. Með honum í för er kanadíski tónlistarmaðurinn Lindy Vopnfjord. „Þetta er gaur sem ég kynntist þegar við vorum að spila með Sprengjuhöllinni í Toronto. Við gistum hjá honum þar. Þetta er svona „singer songwriter“ eins og ég og við erum að túra saman í Volvoinum hans,“ útskýrir Snorri. „Þetta er búið að vera alveg frábært. Það hefur verið góð stemning á tónleikunum okkar og það er líka allt fáránlega fallegt hérna í Nýfundnalandi.“

Fyrsta sólóplata Snorra, I"m Gonna Put My Name On Your Door, kemur út í Evrópu, Bandaríkjunum og í Kanada um miðjan nóvember. Hún kemur einnig út um svipað leyti heima á Íslandi á vinyl en hún kom út á geisladiski fyrir síðustu jól. Snorri flutti til London fyrr á árinu og er enn að koma sér þar fyrir. „Ég er búinn að spila þar einu sinni til tvisvar í viku og verið að kynnast borginni. Þetta er búið að vera geðveikt gaman en maður tekur einn mánuð í einu og reynir að láta þetta ganga upp.“ - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.