Innlent

Bílastæðavandi við Landeyjahöfn

„Bílastæðin eru orðin full hjá okkur, menn eru byrjaðir að leggja aðeins út í vegkantana," segir Sigmar Jónsson hafnarstjóri Landeyjahafnar. Öll bílastæði við höfnina eru orðin yfirfull og hafa menn tekið upp á því að leggja bílum sínum út í vegköntum. Búið er að gera nýtt bílastæði skammt frá höfninni og mun rúta ganga á milli hafnarinnar og bílastæðisins.

„Við leysum þetta allt saman," segir Sigmar. Um fimmtán hundruð farþegar fara með Herjólfi í dag, sem fór eina ferð í hádeginu og fer svo aftur klukkan þrjú, sex og níu. Hann segir að mikið sé um að fólk sem hefur keypt sér miða mæti ekki á svæðið. „Þessi þúsund kall virðist ekki skipta máli hjá þessu fólki. En vissulega eru alltaf einhverjir sem forfallast."

Sigmar hefur verið við höfninni dag og nótt frá opnun. En langar hann ekkert að fara yfir og taka þátt í þjóðhátíðinni? „Nei, ég hugsa að ég komist ekki fyrir. Maður sér það bara héðan að eyjan er troðfull. Ég held að ef ég kæmi yfir þá myndi fólk byrja bara að detta út af," segir Sigmar kátur.

Mikil stemming er við höfnina þar sem allir eru kátir. „Það þýðir ekkert annað, ljómandi gott veður og það eru allir í góðu skapi."

Áætlað er að um 16 þúsund manns séu á Eyjunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×