Innlent

Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið í bili

Nýtt landslag Gosið á Fimmvörðuhálsi stóð í ríflega þrjár vikur. Þegar nokkrir dagar voru eftir af því höfðu um 1,3 ferkílómetrar af hrauni runnið úr eldstöðinni og hraunið var 10 til 20 metra þykkt.mynd/Guðmundur Hilmarsson.
Nýtt landslag Gosið á Fimmvörðuhálsi stóð í ríflega þrjár vikur. Þegar nokkrir dagar voru eftir af því höfðu um 1,3 ferkílómetrar af hrauni runnið úr eldstöðinni og hraunið var 10 til 20 metra þykkt.mynd/Guðmundur Hilmarsson.

Gosinu á Fimmvörðuhálsi er lokið en því lauk í fyrradag. Virknin í eldstöðinni var orðin mjög lítil á sunnudag en fyrir hádegi í fyrradag var smá virkni í einum gígnum. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur fékk Jón Kjartansson þyrluflugmann til að smella af mynd klukkan ellefu á mánudagsmorgun og senda honum í kennslustund í Háskóla Íslands.

„Þetta var mesta „instant" kennsla sem ég hef tekið þátt í," segir Magnús Tumi. Nemendurnir höfðu verið að velta því fyrir sér hvort gosinu væri lokið en mælar sýndu þá mjög lítinn gosóróa.

Síðdegis í gær var gosinu svo lokið og er Guðmundur Hilmarsson flaug yfir í gær var ekki virkni í gígnum. Magnús Tumi segir ekki hægt að fullyrða að ekki muni gjósa aftur þarna. Ef kvika fari aftur að streyma undir Eyjafjallajökli geti hún hugsanlega leitað útrásar um gosrásina. Eftir því sem lengri tími líði verði það ólíklegra. Enn mælast smáskjálftar undir Eyjafjallajökli.

Magnús Tumi segir hraunið verða fullstorknað eftir nokkrar vikur, yfirborðið kólni hratt en hraunið á nokkrum mánuðum. - sbt





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×