Innlent

Ísland á dagskrá stjórnar AGS

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar

Tilkynnt verður síðar í dag um að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) verði tekin fyrir í stjórn sjóðsins á næstunni. Unnið hefur verið að því í íslenska stjórnkerfinu að koma þeirri endurskoðun á dagskrá, en hún átti að fara fram í febrúar.

Dominque Strauss-Kahn, framkvæmdarstjóri sjóðsins, sagði í samtali við fjölmiðla í síðastu viku að tryggja þyrfti meirihluta í stjórn sjóðsins áður en endurskoðunin færi fram. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði við það tækifæri að málið strandaði á pólitík, efnislega stæði ekkert í vegi fyrir endurskoðun. Nú virðist sá meirihluti vera tryggur.

Samkvæmt heimildum hafa embættismenn unnið að breytingu á svokölluðu Letter of Intent undanfarið og það hafi orðið til þess að koma endurskoðuninni á dagskrá. Stjórnin hefur verið treg til að taka málið á dagskrá á meðan ósamið er um Icesave. Tafir á endurskoðun hafa staðið í vegi fyrir afgreiðslu lána til Íslands; frá AGS, Norðurlöndum og Póllandi.

Indriði H. Þorláksson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, segist ekki vita til þess að tilkynningin fari út í dag, en segir að af Íslands hálfu sé allt til reiðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×