Innlent

Steinunn Valdís ræktar garðinn sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steinunn Valdís Óskarsdóttir sótti um stöðu bæjarstjóra á Akranesi. Mynd/ Stefán.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir sótti um stöðu bæjarstjóra á Akranesi. Mynd/ Stefán.
„Mér finnst Akranes vera heillandi sveitarfélag og ég er tilbúinn til þess að veita krafta mína til þess að vinna fyrir það," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og fyrrverandi alþingismaður. Hún er á meðal 37 umsækjenda um stöðu bæjarstjóra á Akranesi.

Steinunn Valdís segir að auglýsingin eins og hún hafi birst í blöðunum henti vel fyrir það sem hún hafi verið að gera í gegnum tíðina. „Ég stýrði stærsta bæjarfélagi landsins í tvö ár og það er líka verið að óska eftir fólki með þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu - sérstaklega sveitarfélaga," segir Steinunn Valdís. Hún telji sig því henta ágætlega í starfið.

Steinunn Valdís segist hafa einlægan áhuga á Skaganum og að flytjast þangað. „Maðurinn minn er ættaður af Skaganum og ég mun að sjálfsögðu flytja þangað uppeftir ef ég verð ráðin," segir Steinunn Valdís. Hún viðurkennir jafnvel að um draumastarfið sé að ræða. „Þetta er sveitarfélag af stærð sem mér finnst heillandi. Þarna búa ríflega sex þúsund manns og þarna hefur verið nokkur uppgangur," segir Steinunn Valdís. Hún bendir á að íbúum hafi fjölgað og nýr meirihluti hafi verið myndaður. „Þarna er nokkurskonar R-lista samstarf sem ég hef mikla reynslu af að starfa með," segir Steinunn Valdís.

Steinunn Valdís segist annars hafa haft það mjög gott síðan að hún hvarf af þingi. „Ég er búin að hafa það prýðilegt. Ég er búin að vera í garðrækt og búin að koma mér upp litlu gróðurhúsi og farin að sá fyrir kryddjurtum, káli og svoleiðis. Þannig að ég verð ábyggilega sjálfbær í framtíðinni," segir Steinunn Valdís glöð í bragði.

Steinunn Valdís segir að margir frambærilegir kandídatar hafi sótt um starfið hjá Akranesbæ. Það standi til að ráða besta einstaklinginn faglega og ekkert hafi verið ákveðið fyrirfram um það hver eigi að fá þessa stöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×