Innlent

Vilja draga ESB-umsóknina til baka

Mynd/GVA
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins auk þingflokksformanns Framsóknarflokksins og þingmanns VG kröfðust þess við upphaf þingfundar í dag dagskrá Alþingis verði breytt og að þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka yrði sett á dagskrá. Leiðtogaráð ESB ákveður á fundi sínum á morgun hvort hafnar verði aðildarviðræður við Ísland.

Þingmennirnir vísuðu meðal annars til minnisblaðs sem staðgengill þýska sendiherrans lagði fram á fundi með íslenskum embættismönnum í gær og Morgunblaðið vitnar til í dag. Þar kemur fram að þýska þingið telur að Ísland verði að „taka sig á hvað varðar verndun hvala í samræmi við alþjóða- og ESB-lög."

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sagði óttækt að viðræðunum yrði haldið áfram þar sem í uppsiglingu væri ágreiningu um sjávarútvegs- og hvalveiðimál.

„Við erum sjálfstæð þjóð. Við erum fullvalda þjóð," sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins þegar hún tók undir þá kröfu Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, að þingsályktunartillaga sem þingmenn úr öllum flokkum fyrir utan Samfylkinguna lögðu fram á Alþingi nýverið, verði sett á dagskrá. Þau sögðu að málið varðaði undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Undir þetta tóku Ásmundur Daði Einarsson, þingmaður VG, og Jón Gunnarsson, Pétur Blöndal, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, benti á að dagskrá Alþingi væri í samræmi við samkomulag formanna stjórnmálaflokkanna frá því gær.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, sagði að afstaða þýska þingsins og Evrópusambandsins til hvalveiði verði tekin fyrir á sameiginlegum fundi utanríkismálanefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Hann sagði auk þess að þingsályktunartillagan um að aðildarumsókn Íslands að ESB verði dreginn til baka verði rædd í utanríkismálanefnd í dag.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, benti á að aðildarviðræðurnar væru ekki hafnar. Þá rifjaði hún upp að útflutningstekjur Íslendinga af hvalveiðum í fyrra vor fimm þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×