Innlent

Skorið niður um 33 milljarða - fjárlög kynnt í dag

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Gert er ráð fyrir þrjátíu og þriggja milljarða króna niðurskurði í fjárlögum næsta árs sem lögð verða fram á Alþingi í dag. Búist er við að að skattahækkanir skili 10 milljörðum í auknar tekjur. Miðað er við að útgjöld til velferðarmála verði lækkuð um sex prósent.

Fjárlögin næsta árs voru unnin í samræmi við sérstaka aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn án halla árið 2012 og með umtalsverðum afgangi árið 2013, en gert er ráð fyrir tæplega hundrað milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs í fjárlögum þessa árs. Í fjárlagafrumvarpi síðasta árs var áætlun sem miðaði við að hallinn á ríkissjóði yrði 23 milljarðar króna á árinu 2011.

Aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum hefur verið unnin í nánu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en Mark Flanagan, fráfarandi yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi, hrósaði vinnu íslenskra stjórnvalda við fjárlögin í samtali við fréttastofu í gær og sagði að ef það markmið næðist að ríkissjóður yrði rekinn án halla árið 2012 þá væri það ótrúlegur árangur í ljósi þess að algjört kerfishrun hafi orðið hér á landi haustið 2008.

Fjármálaráðherra og embættismenn úr fjármálaráðuneytinu kynna frumvarp til fjárlaga næsta árs á lokuðum fundi núna í hádeginu en klukkan fjögur í dag ræðst hvort þessi áætlun ríkissjóðs um 23 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári, haldi, þegar fjárlögin verða kynnt opinberlega.

Vinna við fjárlögin hefur staðið í nokkra mánuði, en heildarniðurskurður nemur um þrjátíu og þremur milljörðum króna. Skera á niður um 6 prósent í velferðar- og heilbrigðismálum og búist er við að niðurskurðurinn verði um 9 prósent í almennri þjónustu hins opinbera. Hins vegar verður skorið niður meira hjá einstökum heilbrigðisstofnunum og í einhverjum tilvikum hleypur niðurskurður á tugum prósenta. Þá verður háskólunum gert að skera niður um 7,5 prósent og framlög til félags- og menntamála verða skorin niður um 5 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×