Enski boltinn

Ferguson: Þeir réðu ekkert við Rooney

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Rooney var ótrúlegur. Hann var lykilmaður okkar í leiknum og þeir réðu ekkert við hann," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, eftir 3-1 útisigurinn magnaða gegn Arsenal í dag.

Rooney skoraði eitt af mörkum United sem var hans tuttugasta mark á tímabilinu og hundraðasta úrvalsdeildarmark frá upphafi. Hann hefur verið sjóðheitur að undanförnu og sögusagnir um að United neyðist jafnvel til að selja hann vegna slæmrar fjárhagsstöðu félagsins.

Ferguson segir að Rooney sé þó alls ekki á förum. „Hann er mjög ánægður hjá félaginu. Hann er mjög vinsæll í leikmannahópnum og gæti ekki verið betri félagi. Hann er mjög jarðbundin og skemmtileg týpa," sagði Ferguson.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu okkar í dag. Á þessum kafla í tímabilinu þurfum við að spýta í lófana. Frammistaðan á miðvikudaginn gegn Manchester City hjálpaði okkur. Við sköpuðum okkur fullt af færum í þessum leik."

„Við þurfum að treysta á að Chelsea tapi stigum en Arsenal er enn með í baráttunni. Ég vona að Arsenal fari á Stamford Bridge og taki öll stigin næstu helgi," sagði Ferguson.

Arsene Wenger stjóri Arsenal var að vonum ekki sáttur við sitt lið. „Við gerðum mikið af slæmum einstaklingsmistökum og þetta eru mikil vonbrigði fyrir okkur. En við verðum að standa saman. Við vorum slakir í dag og eigum að geta miklu betur. Við erum ákveðnir í að sýna okkar réttu hliðar í næsta leik sem er gegn Chelsea," sagði Wenger.

Smelltu hér til að sjá svipmyndir úr leik Arsenal og Manchester United






Fleiri fréttir

Sjá meira


×