Innlent

Greiddi ekki skuldir sem námu yfir 5 milljörðum

Sigríður Mogenson skrifar
Salt Properties, félag í eigu Róberts Wessman, greiddi ekki skuldir sem námu yfir fimm milljörðum króna, en þær voru á gjalddaga í ár. Skilanefndir Landsbankans og Glitnis og Straumur munu væntanlega leysa til sín eignir félagsins, en það á meðal annars landareignir á Spáni og í Brasilíu.

Salt Properties er í eigu Salt Investments, eignarhaldsfélags Róberts Wessman. Félagið á landareignir í Brasilíu og á Spáni og eignarhluti í fasteignafélögum í Vilnius í Litháen.

Í síðasta birta ársreikningi Salt Properties kemur fram að afborganir á árinu 2010 nemi rúmum fimm milljörðum króna. Árni Harðarson, stjórnarmaður í félaginu, staðfesti í samtali við fréttastofu að umrædd lán væru þegar fallin á gjalddaga og að félagið hafi ekki haft bolmagn til að greiða afborganirnar.

Helstu lánveitendur eru gamli Landsbankinn og Straumur. Þá á skilanefnd Glitnis einnig hagsmuna að gæta í Salt samstæðunni.

Unnið er að skuldauppgjöri við bankana og verður reynt að láta eignir ganga upp í skuldir. Landareignir á Spáni og í Brasilíu auk fasteignafélaga í Litháen munu því væntanlega ganga inn í þrotabú föllnu bankanna innan tíðar.

Staða Salt Investments er einnig erfið en annað dótturfélag Salt Investments keypti bréf í Glitni fyrir nokkra milljarða rétt fyrir fall bankans á lánum. Þá ríkir óvissa um verðmæti 10% eignarhlutar Salt í Actavis, en fjárhagslegri endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins lauk samhliða nýlegu skuldauppgjöri Björgólfs Thors og ekki fást upplýsingar um hvort hlutafé var þynnt út samhliða því.

Á sama tíma og samstæða Róberts Wessman riðar til falls stendur hann í stórræðum annars staðar. Á hann ráðandi hlut í samheitalyfjafyrirtækinu Alvogen, en fjögur hundruð manns starfa hjá því í Bandaríkjunum. Róbert vinnur einnig að því að opna einkasjúkrahús í gamla hersjúkrahúsinu að Ásbrú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×