Innlent

Slökktu eld á frívakt

Mynd/Stefán Karlsson
Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar eldur kviknaði í feitispotti á eldavél í heimahúsi á Selfossi í gærkvöldi. Heimafólk kallaði á slökkvilið, en slökkviliðsmaður og sjúkraflutningamaður, sem bjuggu í grennd við húsið, en voru báðir á frívakt, fengu skeyti um útkallið og þustu á staðinn með eigin slökkvitæki.

Þá var eldurinn kominn í háf fyrir ofan eldavélina og var að teygja sig upp í loftklæðningu, en þeir náðu að slökkva snarlega áður en hann færi úr böndunum, og áður en slökkviliðið kom á vettvang.

Engan sakaði og óverulegar skemmdir urðu vegna eldsins, en húsið var reykræst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×