Innlent

Milljónalaun sögð of góð fyrir bæjarstjóra

Bæjarstjórn hefur endurnýjað ráðningarsamning við Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra.
Bæjarstjórn hefur endurnýjað ráðningarsamning við Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra.
Minnihluti A-listans í bæjarstjórn Hveragerðis segir laun Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra vera of há. Nýr ráðningarsamningur við Aldísi var ræddur á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag. Minnihlutinn benti á að samkvæmt honum yrðu laun og hlunnindi Aldísar um 1.050.000 krónur á mánuði.

Minnihlutinn kveðst ekki gera athugasemdir við 487 þúsund króna grunnlaun bæjarstjórans en segir honum ætluð önnur réttindi og starfskjör sem séu umfram það sem aðrir starfsmenn bæjarins fái. „Sem er fullkomlega óeðlilegt og mismunun við aðra starfsmenn,“ segir í bókun minnihlutans.

Aldís Hafsteinsdóttir segir ráðningarsamninginn nú sambærilegan við fyrri samning. Breytingin sé aðallega sú að nú greiði bærinn ekki bifreið fyrir bæjarstjórann heldur borgi aksturspeninga. Þetta muni bærinn væntanlega þurfa að greiða minna í bifreiðakostnað bæjarstjóra en áður. Þess utan lækki hún um tvo launaflokka.

Gagnrýni fulltrúa A-listans beinist að því að bæjarstjóri fái greiddar 72 klukkustundir í fasta yfirvinnu alla mánuði ársins, greiddan bílastyrk fyrir 1.300 kílómetra akstur á mánuði og skuli eiga rétt á sex mánaða biðlaunum. Sérstaklega óeðlilegt sé að bæjarstjóri fái yfirvinnu og akstursgreiðslur á orlofstíma.

Meirihluti D-listans sagði gagnrýni A-listans ranga og misvísandi og felldi tillögu minnihlutans um að bæjarstjórinn fengi aðeins greitt fyrir þá yfirvinnu sem hann vinni eða þá að taka yfirvinnutíma sem frí. Sömuleiðis var fellt að hann fengi greiddan bílastyrk í samræmi við akstursbók eins og aðrir bæjarstarfsmenn og að biðlaunarétturinn yrði þrír mánuðir í stað sex mánaða.

„Það hefur verið könnun á kjörum sveitarstjóra á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sýnir að sveitarstjórar í Hveragerði hafa verið í hópi lægst launuðu sveitarstjóra í sveitarfélögum af okkar stærðargráðu,“ segir Aldís sem gefur lítið fyrir þá tillögu minnihlutans að hún taki yfirvinnu út í fríum. „Ég held að flestir sem þekkja störf bæjarstjóra viti að hann er alltaf á vaktinni og það væri fátt um vinnudaga ef ég ætti að taka yfirvinnuna út í fríum.“

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×