Innlent

Íslenska skattkerfið er skilvirkt segir AGS

Skattkerfið var vanbúið og götótt fyrir banka- og gengishrunið. Búið er að staga í helstu göt og verður það bætt á nýju ári, að sögn fjármálaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Skattkerfið var vanbúið og götótt fyrir banka- og gengishrunið. Búið er að staga í helstu göt og verður það bætt á nýju ári, að sögn fjármálaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Íslenska skattkerfið er í grunninn skilvirkt og hafa breytingar bætt úr göllum sem á því voru. Á móti þykir hluti skattkerfisins flókinn og bjóða upp á skattaundanskot.

Þetta er á meðal þess helsta sem fram kemur í óbirtri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um íslenska skattkerfið. Ýmsar ábendingar er að finna í skýrslunni, svo sem um það hvernig styrkja megi skattstofna.

Eftir því sem næst verður komist mun AGS ekki hafa afskipti af breytingum á skattkerfinu svo lengi sem þær stangist ekki á við efnahags­áætlun AGS og stjórnvalda og séu liður í því að grynnka á skuldum hins opinbera.

Starfshópur á vegum fjármálaráðuneytis sem á að leggja fram heildartillögur að breytingum á skattkerfinu fyrir árslok mun hafa skýrslu AGS til hliðsjónar. Gert er ráð fyrir að tillögurnar bæti afkomu ríkissjóðs í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum en miði um leið að því að dreifa skattbyrði með sanngjörnum hætti og hlífa tekju­lágum við skattahækkunum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, segist tiltölulega ánægður með skýrsluna. Hún sé vönduð og innihaldi góðar ábendingar. „Ég held að skattkerfið fái þarna tiltölulega jákvæða umfjöllun. Það voru göt á kerfinu fyrir hrun og ljóst að það var mjög vanbúið. Nú er búið að taka á því. Ýmislegt er þó enn ógert. En skattkerfið er skilvirkt og þjónar tilgangi sínum. Þeir sem hafa gagnrýnt skattkerfið fá ekki liðsstyrk í skýrslunni,“ segir fjármálaráðherra.

Hópur sérfræðinga AGS kom til Íslands að ósk á fjármálaráðherra í vor og gerði ítarlega úttekt á skattkerfinu. Skattkerfið hér var borið saman við önnur lönd og gerðar tillögur að breytingum. Steingrímur fékk helstu niðurstöður í hendur í maí og gerði þá ríkisstjórn grein fyrir þeim.

AGS leit á skýrsluna sem vinnuskjal fyrir stjórnsýsluna og varð Steingrímur að óska eftir því sérstaklega að hún yrði gerð opinber. Hann fékk endanlega gerð skýrslunnar í hendur fyrir stuttu. „Ég reikna með að hún verði birt á næstu dögum,“ segir ráðherra. jonab@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×