Lífið

Potter-gengið sameinað á ný

Samkvæmt breska blaðinu The Sun þurfa leikararnir þrír, Daniel, Emma og Rupert, að hittast til að taka aftur upp lokaatriðið í Harry Potter.
Nordic Photos/Getty
Samkvæmt breska blaðinu The Sun þurfa leikararnir þrír, Daniel, Emma og Rupert, að hittast til að taka aftur upp lokaatriðið í Harry Potter. Nordic Photos/Getty
Rándýr mistök sem áttu sér stað við tökur á lokamynd ævintýranna um galdrastrákinn þýða að Potter-gengið þarf að öllum líkindum að endurnýja kynnin.

Emma Watson, Rupert Grint og Daniel Radcliffe áttu hjartnæma stund í apríl á þessu ári þegar síðustu upptökurnar á Harry Potter fóru fram við King‘s Cross lestarstöðina í London. Samkvæmt sjónar­vottum féllu tár þegar kallað var „cut!“ í síðasta sinn og leikararnir kvöddust eins og þetta væri þeirra síðasta.

En nú gætu mistök við tökur haft þær afleiðingar að vinirnir þrír þyrftu að mæta aftur til leiks og taka upp eitt af lokaatriðum Harry Potter bálksins.

Þótt leikararnir séu eflaust ákaflega sáttir er nokkuð ljóst að leikstjórinn Peter Yates myndi vilja veifa töfrastafnum og láta vandann hverfa því endurtökurnar verða ekki ókeypis. Breska götublaðið The Sun greindi frá þessu í gær. Samkvæmt blaðinu eiga þau Hermione, Harry og Ron að líta út fyrir að vera nítján árum eldri en þau eru í síðustu myndinni. Þegar klipparar fóru yfir atriðið kom hins vegar í ljós að þau þrjú voru eins og gamalmenni.

„Allir í tökuliðinu, bæði leikarar og tæknifólk, hlógu mikið þegar þeir sáu atriðið og hafa kallað myndina „Harry Potter and the Costly Hollows“ eða Harry Potter og hin rándýru innföllnu,“ hefur The Sun eftir heimildarmanni sínum. Hann bætir því við að Daniel, Emma og Rupert hafi verið ákaflega sátt með að hittast einu sinni enn enda hafi kveðjustundin verið þeim erfið.

Sami heimildarmaður tekur hins vegar fram að framleiðendurnir séu ekkert sáttir með gang mála, enda sé hugsað um hverja einustu krónu. Hins vegar verður ekkert vandamál að finna aura fyrir þessar tökur því samkvæmt The Sun er vörumerkið Harry Potter nú metið á sjö milljarða punda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.