Ekkert samband var haft við Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar Alþingis, áður en tekin var sú ákvörðun að Ísland skyldi sitja hjá við atkvæðagreiðslu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrradag.
Á þinginu var samþykkt tillaga um að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Alls samþykktu 122 ríki ályktunina, enginn var á móti, en 41 sat hjá. Auk Íslands voru það Ástralía, Danmörk, Írland, Ísrael, Japan, Svíþjóð og Bandaríkin, svo dæmi séu nefnd.
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis var ekki með í ráðum þegar afstaða Íslands í málinu var mótuð. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sent formanni nefndarinnar tölvupóst og farið fram á að nefndin komi saman vegna málsins. Árni Þór segist munu skoða málið þegar að hann kemur til Reykjavíkur. Hann er nú staddur í fríi utan Reykjavikur og fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag.
Afstaða Íslands ekki rædd við formann utanríkismálanefndar
Jón Hákon Halldórsson skrifar
