Innlent

Gengistrygging: Prófmál þingfest í héraði

Prófmál um uppgjör gengistryggðra lánasamninga var þingfest fyrir héraðsdómi í gær. Rati málið fyrir hæstarétt mun dómur réttarins að öllum líkindum eyða óvissu um hvort samningsvextir lánanna standi eða ekki.

Einn stærsti óvissuþátturinn eftir að hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána ólöglega er samkvæmt hvaða skilmálum beri að gera lánin upp, það er að segja hvaða vextir verði lagðir á lánið þegar það verður uppreiknað.

Það verður að öllum líkindum Hæstiréttur sem hefur síðasta orðið um það, en til að draga úr óvissu sendu Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið frá sér tilmæli til fjármálastofnana um að reikna lánin miðað við vexti sem seðlabankinn ákveður í stað samningsvaxta þangað til dómur fellur.

Nú hefur fyrsta málið þar sem ágreiningur er um þetta atriði hins vegar ratað fyrir dómstóla.

Í gær var mál Lýsingar gegn skuldara þingfest fyrir héraðsdómi, en málflutningur hefst næsta miðvikudag. Lýsing krefst þess að lánið verði gert upp miðað við verðtryggingu og vexti samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins. Til vara er þess krafist að það verði gert upp miðað við verðtryggða vexti seðlabankans, óverðtryggða vexti Lýsingar eða óverðtryggða vexti seðlabankans. Fyrirtækið segir að forsendubrestur hafi átt sér stað þegar gengistryggingin var dæmd ólögleg, og samningsvextirnir séu því of lágir.

Skuldarinn krefst þess hins vegar að vextir lánsins samkvæmt upphaflegum samningi standi óhaggaðir.

Jóhannes Árnason, verjandi mannsins, segist telja að samkvæmt lögum ætti ekki að vera hægt að breyta samningnum eftir á, neytandanum í óhag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×