Erlent

Sveppur ógnar ópíumframleiðslunni í Afganistan

Valmúaakur í fullum blóma.
Valmúaakur í fullum blóma.

Þeim sem berjast gegn ópíumrækt í Afganistan hefur borist liðstyrkur. Sveppategund herjar nú á valmúann sem ópíum er unnið úr og segja sérfræðingar líklegt að uppskeran í ár minnki um fjórðung miðað við síðasta ár. Nær öll heimsframleiðsla eitulyfsins kemur frá Afganistan og er sjúkdómurinn þegar farinn að hafa áhrif á verðið á ópíumi í landinu og hefur verðið hækkað um helming.

Skammtímaáhrifin eru reyndar góð fyrir Talibana og aðra uppreisnarhópa í landinu sem reiða sig á ópíumframleiðslu til fjáröflunar því þeir hafa komið sér upp miklum byrgðum af eiturlyfinu. En til langs tíma eru fréttirnar slæmar því óvíst er hvort bændum takist að stemma stigu við útbreiðslu sveppsins sem gæti rústað uppskerunni í öllu landinu.

Ópíumbændurnir í Afganistan saka nú NATO um að standa á bak við sveppinn en talsmenn bandalagsins hafa þvertekið fyrir að það sé raunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×