Innlent

Eiríkur Björn verður bæjarstjóri á Akureyri

Eiríkur Björn Björgvinsson.
Eiríkur Björn Björgvinsson.

Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hefur ákveðið að ráða Eirík Björn Björgvinsson sem bæjarstjóra á Akureyri til næstu fjögurra ára. Gengið verður frá formlegum ráðningarsamningi síðar í þessum mánuði og innhald hans kynnt í framhaldi af því. Eiríkur Björn mun hefja störf þann 15. ágúst næstkomandi að því er fram kemur í tilkynningu frá bænum.

Eiríkur Björn er fæddur árið 1966 og lauk íþróttakennaraprófi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1990 og diplómu frá Íþróttaháskólanum í Köln árið 1994 auk diplómaprófs í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000. Hann hefur starfað sem æskulýðs- tómstunda og íþróttafulltrúi á Egilsstöðum og á Akureyri en frá árinu 2002 gegndi hann stööu bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði.

Alls sóttu 64 um starf bæjarstjóra á Akureyri en 11 drógu umsókn sína til baka þegar ljóst var að nöfn umsækjenda yrðu birt. Capacent hafði umsjón með ráðningarferlinu. Fyrirtækið valdi 20 einstaklinga úr hópi 53ja umsækjenda til nánari skoðunar og loks 3 úr þeim hópi sem bæjarstjóraefni. Að auki fékk L-listinn 5 manna óháða ráðgjafarnefnd sér til fulltingis í ráðningarferlinu. Á endanum stóð valið á milli sömu þriggja umsækjenda og Capacent mælti með og var Eiríkur Björn valinn úr þeim hópi, sem fyrr segir.

Bæjarráð Akureyrar mun fjalla um ráðningu nýs bæjarstjóra og staðfesta hana formlega.

Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, segist mjög ánægður með þessa niðurstöðu. „Ég tel að við höfum ráðið mjög hæfan mann til að gegna bæjarstjórastarfinu næstu fjögur árin og hann kemur úr stórum hópi mjög frambærilegra umsækjenda. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem sóttu um starfið. Jafnframt óska ég Akureyringum til hamingju með nýja bæjarstjórann og býð Eirík Björn og fjölskyldu velkomin í bæinn aftur," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×