Lífið

Vélmenni Bjarkar innblástur stóls

„Ég vildi að stóllinn hefði sterkan karakter, en ekki of sterkan þar sem ég vil að hann virki í fjölbreyttum rými," segir ítalski hönnuðurinn Luca Nichetto.

Nichetto hefur hannað stólinn Robo-Craft sem hann segir vera undir áhrifum frá myndbandi Bjarkar Guðmundsdóttur við lagið All is Full of Love. Myndbandið kom út árið 1999 og var leikstýrt af Chris Cunningham.

Eins og Björk er Nichetto umhverfissinni. Stóllinn er settur saman úr endurunnum efnum og málaður með vatnsmálningu. Þá er hann límdur saman úr náttúruvænu lími. Hann segist líka hafa tekið mið af því að framleiðandi stólsins framleiðir oft fyrir opin rými. „Ég vildi hanna stól sem myndi líta jafn vel út í nýtískulegu húsnæði og á til dæmis flugvelli," segir Nichetto í samtali við hönnunartímaritið Metropolis.

Þessi saklausi stóll er undir áhrifum frá tónlistarmyndbandi Bjarkar, sem MTV2 valdi það besta sem gert hefur verið.
Myndband Bjarkar vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og vann meðal annars til verðlauna á MTV-hátíðinni. Þá var það tilnefnt til Grammy-verðlauna, en tapaði fyrir myndbandi hljómsveitarinnar Korns við lagið Freak on a Leash. Þá er það til sýnis á MOMA-listasafninu í New York og var í fyrsta sæti á lista MTV2 yfir 100 bestu tónlistarmyndbönd allra tíma. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.