Lífið

Ævisaga Jónínu prentuð í risaupplagi

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, hellir sér út í bókaútgáfu og veðjar á ævisögu Jónínu Benediktsdóttur.
Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, hellir sér út í bókaútgáfu og veðjar á ævisögu Jónínu Benediktsdóttur. Mynd//GVA

„Mér hefur fundist þessi markaður vera staðnaður. Vöruhúsabisness. Þessu viljum við breyta," segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1. Fyrirtækið blandar sér í slaginn um jólabækurnar þetta árið og hefur keypt dreifingarrétt á tveimur bókum; ævisögu Jónínu Benediktsdóttur sem Sena gefur út og bók sem Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, skrifar í samvinnu við Karl Th. Birgisson, sem gefur bókina jafnframt út.

Hermann og hans fólk virðist hafa tröllatrú á bókunum því þær eru prentaðar í stærra upplagi en hefur viðgengist í bókaútgáfu hérlendis síðustu ár. Lenskan hefur verið að prenta aukaprentanir ef vinsældir gefa tilefni til þess. Fyrsta upplag af bók Jónínu verður hins vegar tíu þúsund eintök. „Við höfum trú á þessari bók og ég ætla að selja þetta upplag og helst meira. Tíu þúsund er jú innan við tíu prósent af heimilum landsins," segir Hermann sem hefur sjálfur ekki lesið bók Jónínu. „Ég hef ekki séð staf úr henni."

Bók Björgvins verður prentuð í sjö þúsund eintökum til að byrja með. „Svo kemur í ljós hvort sá markaður er fyrir hendi."









Hermann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að bækurnar verði seldar víðar en í verslunum N1. „Ef við sjáum góðan takt í þessu, þá fer þetta ekki mikið víðar," segir forstjórinn en ýmsir nýir siðir fylgja nýjum mönnum í bókabransanum.

Ekki verður skilaréttur á bókunum en á móti kemur að þær verða allar númeraðar. Eftir jólin verður svo dregið úr seldum eintökum og hinir heppnu hljóta vinninga. Þá mun hluti af söluandvirðinu renna til góðgerðamála. Jónína Ben. hefur valið Konukot en málefni Björgvins hefur ekki verið ákveðið.- hdm














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.