Innlent

Fjarlægja forsendu verðmunar

Póst- og fjarskiptastofnunin vonast til þess að efla samkeppni á farsímamarkaði með breytingu á lúkningargjöldum. Fréttablaðið/AP
Póst- og fjarskiptastofnunin vonast til þess að efla samkeppni á farsímamarkaði með breytingu á lúkningargjöldum. Fréttablaðið/AP
Fyrirtæki sem selja farsímaþjónustu þurfa að lækka svokölluð lúkningargjöld sem lögð eru á símtöl milli farsímakerfa um 50 til 67 prósent samkvæmt nýrri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Lúkningargjöldin lækka í skrefum fram að ársbyrjun 2013 niður í fjórar krónur og verða þá jafnhá hjá öllum farsímafyrirtækjunum. Þá eru upphafsgjöld afnumin.

Breytingin er sögð leiða til þess að ein meginforsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu þegar hringt er í annað farsímafélag verði ekki lengur til staðar. Í greiningu PFS kom í ljós að samkeppnisvandamál á markaði farsímaþjónustu hafi fyrst og fremst mátt rekja til þess að farsímafyrirtækið sem réði yfir netinu sem símtalinu var lokið í hafi verið með einokunarstöðu á viðkomandi markaði. „Að mati PFS á sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum er þannig velt yfir á þá notendur sem eru tengdir öðrum farsíma- eða fastlínunetum,“ segir í umfjöllun stofnunarinnar.

Hæsta lúkningarverðið er nú hjá Nova og IMC/Alterna, eða 12 krónur mínútan. Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir verðið í takt við þann ramma sem PFS hafi heimilað, en það hafi verið hærra hjá nýjum félögum sem byggja hafi þurft upp ný fjarskiptanet og svo smálækkað. Hún fagnar ákvörðun PFS og segir breytinguna í takt við þróun sem eigi sér stað meðal fjarskiptafyrirtækja um heim allan. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×