Innlent

Fann óskemmdan iPod sem hafði legið úti í tvö ár

Þorgerður María Þorbjörnsdóttir afhendir Ólöfu Óladóttir ipodinn.
Þorgerður María Þorbjörnsdóttir afhendir Ólöfu Óladóttir ipodinn. Mynd / ÞBR.

15 ára starfsmaður Vinnuskólans á Egilsstöðum, Þorgerður M. Þorbjarnardóttir, fann á dögunum iPod í svokölluðum Múla uppi á Jökuldal þar sem hún var að vinna að uppgræðslustörfum. Tækið hafði legið úti í tvö ár samkvæmt fréttavef agl.is.

Þorgerður var að vinna við að sá fræi og dreifa áburði í Múlanum þegar hún kom auga á iPodinn í moldarflagi sem hún var að græða upp. Fljótlega kom í ljós að tækið var í besta lagi þrátt fyrir að hafa legið þarna í öllum tegundum íslenskrar veðráttu.

Við rannsóknir kom í ljós að myndir frá fermingaveislu eigandans voru inni á minni tækisins og þannig komst fjölskylda Þorgerðar á sporið um hver ætti tækið.

Síðar kom í ljós að tækið hafði legið þarna síðan eigandinn, Atli Grétar Ingólfsson, hafði týnt því þegar hann einmitt var að vinna við sömu iðju á vegum vinnuskólans tveim árum áður.

Það var síðan í gær að tækinu var skilað til eigandans, þegar stjúpa hans Ólöf Óladóttir, tók við tækinu úr hendi Þorgerðar Maríu, en Atli Grétar er staddur erlendis. Hann er eflaust sáttur við að endurheimta tækið enda bæði um kostagrip að ræða sem og dýra rafmagnsgræju.

Lesa má fréttina í heild á vef agl.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×