Innlent

Fagna ákvörðun Samtaka fjármálafyrirtækja

Hagsmunasamtök heimilanna fagna ákvörðun Samtaka fjármálafyrirtækja um að boðið verði upp á greiðslu á gengistryggðum íbúðalánum. Greiðslur íbúðalána í erlendri mynt verða lækkaðar og festar tímabundið. Frá 1. ágúst geta lántakendur greitt 5 þúsund krónur af hverri milljón upphaflegs höfuðstóls og þá verður réttur lántakenda tryggður.

Hagsmuna samtök heimilanna telja ákvörðunina vera skref í átt að sátt í þjóðfélaginu eftir að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið stigu fram í síðustu viku með vanhugsuðum hætti. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki hafa ákveðið að verða við tilmælum samtaka fjármálafyrirtækja. „Ánægjulegt er hve skjótt fjármálafyrirtækin brugðust við. Ekkert hefur heyrst frá slitastjórnum eða skilanefndum SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans. Þessir aðilar buðu strax 18. júli upp á sambærilegt úrræði, þó sá böggull fylgi skammrifi að það krefst skilmálabreytinga með tilheyrandi kostnaði. HH (Hagsmunasamtök heimilanna) skora á öll fjármálafyrirtæki að ganga að tilmælum SFF og hafa þetta úrræði lántökum að kostnaðarlausu og með minnstri fyrirhöfn."

Hagsmunasamtök heimilanna vara við því að farið verði í of miklar flækjur á þessu stigi mála. Hæstiréttur eigi örugglega eftir að fá til meðferðar mál, þar sem tekið verður á því hvort núverandi samningsvextir eða einhver önnur kjör eiga að vera á þeim lánasamningum sem báru hina ólöglegu gengistryggingu.

„Þó að núna sé fyrir dómi mál er varðar bílalán, þá er ekki alltaf saman að jafna vaxtakjörum bílaláns til nokkurra ára og vaxtakjörum íbúðaláns til 20 - 30 ára. Á hvaða veg sem slíkur dómur fellur, má búast við að fjármálafyrirtæki eða lántakar vilji láta reyna á vaxtakjör íbúðalána. Af þeim sökum telja HH það ekki tímabært að fara út í umfangsmiklar breytingar á lánasamningum fyrir 1. september, eins og Landsbankinn boðar, til þess eins að breyta lánasamningunum aftur komist Hæstiréttur að annarri niðurstöðu en felst í tilmælum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Það er hið besta mál, að fjármálafyrirtækin átti sig á því hvað tilmæli Seðlabanka og FME fela í sér og miðli þeim upplýsingum til lántaka, en að eyða tíma lántaka í skjalagerð, að sendast milli fjármálafyrirtækja til að fá undirskriftir síðari veðhafa, þinglýsingu og annað sem breytingu á samningum fylgir, er að mati HH algjör óþarfi. Það hlýtur að vera hægt að nota einfaldari aðferðir, þar til fordæmisgefandi dómar falla í Hæstarétti."

Hægt er að sjá tilkynninguna í heild sinni hér fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×