Innlent

Hnefaleikari opnaði barnaþorp

SB skrifar
SOS móðir ásamt hópi af börnum í Úkraínu. Að sögn Ragnars flytja SOS mæðurnar í húsin og ala börnin upp til tvítugs.
SOS móðir ásamt hópi af börnum í Úkraínu. Að sögn Ragnars flytja SOS mæðurnar í húsin og ala börnin upp til tvítugs.
Nýverið var fyrsta SOS Barnaþorpið í Úkraínu tekið formlega í notkun. Þorpið er staðsett í Brovary, skammt frá höfuðborginni Kiev. Eitt hús í nýja þorpinu var reist fyrir íslenskt fé. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ragnari Schram, kynningarstjóra SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Ragnar Schram, kynningarstjóri SOS barnaþorpanna á Íslandi, var ekki viðstaddur opnunina. Hann segir það kosta talsvert fé að fljúga út og því hafi verið tekin sú ákvörðun að sitja frekar heima. Samtökin hér heima séu hins vegar stolt af sínum þætti - tekist hefði að safna pening fyrir einu húsi á árunum 2003-2004 og það hafi svo verið loksins nú sem þorpið hafi opnað.

„Árið 2004 hófu samtökin hér á landi söfnun til að fjármagna eitt fjölskylduhús í nýju barnaþorpi í Úkraínu. Það var þá í fyrsta sinn sem íslensku samtökin stóðu fyrir slíkri söfnun og ábyrgðust fjármögnun byggingar í barnaþorpi. Fjölmargir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, lögðu fram fé í söfnunina en bygging þorpsins tafðist umtalsvert, meðal annars vegna flókins skrifræðis í Úkraínu," segir Ragnar.

Hnefaleikarinn Vladimir Klitschko er stórstjarna í Úkraínu og hjálpaði til að leysa úr lagalegum flækjum sem komu upp við byggingu þorpsins.
Pólitíkin í Úkraínu er oft á tíðum talin einkennast af mútum og spillingu. Í tilkynningu frá SOS barnaþorpum á Íslandi kemur fram að hnefaleikamaður Vitali Klitschko hafi hjálpað til við að leysa lagaleg vandamál sem töfðu fyrir framkvæmdum.

„Einn dyggasti stuðningsmaður SOS Barnaþorpanna í Úkraínu var viðstaddur opnunina en það er úkraínski þungaviktarhnefaleikarinn og WBC heimsmeistarinn Vitaly Klitschko sem hefur látið sig mjög varða málefni umkomulausra barna í heimalandi sínu. Hann var um tíma í borgarráði Kiev og átti stóran þátt í því að leysa lagaleg vandamál sem töfðu fyrir framkvæmdum."

Í tilkynningunni kemur fram að hjálparstarfið í Úkraínu sé rétt að byrja: „Þegar er hafinn undirbúningur framkvæmda við annað SOS Barnaþorp í Úkraínu og vonir standa til að þorpin þar í landi verði orðin þrjú áður en langt um líður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×