Lífið

Fjölmennur Útidúr vekur athygli

Hljómveitin Útidúr spilaði í Tjarnarbíói á Airwaves-tónlistarhátíðinni. fréttablaðið/arnþór
Hljómveitin Útidúr spilaði í Tjarnarbíói á Airwaves-tónlistarhátíðinni. fréttablaðið/arnþór
„Við fórum í viðtöl hjá Frakka og einhverjum Ameríkana sem eru bloggarar," segir Kristinn Roach Gunnarsson, píanóleikari Útidúrs. Þessi efnilega poppsveit spilaði í Tjarnarbíói á Airwaves-hátíðinni fyrir skömmu og vakti þar athygli erlendra blaðamanna. „Þetta var mjög gaman. Þetta er mjög flottur staður og við fengum fín viðbrögð."

Meðlimir Útidúrs eru tólf og eru á aldrinum 16 til 24 ára, allir af höfuðborgarsvæðinu. Sveitin hefur verið starfandi í eitt ár og var að gefa út sína fyrstu plötu, sem nefnist The Mess We've Made. „Ég og Gunnar [Örn Egilsson] söngvari vorum í Kvennó saman og vorum í mörgum hljómsveitum þar. Þar kynntumst við Rakel [Mjöll Leifsdóttur] og svo bættist smám saman í hópinn," segir Kristinn. Hljómsveitin gefur plötuna út sjálf en Record Records sér um dreifingu. Mikil vinna var lögð í plötuna og ber fagmannlega unnið umslagið vott um það. „Við þurfum að selja ansi mikið til að komast upp í núllið en vonandi gengur það vel." Hönnuður umslagsins var söngvarinn Gunnar Örn, sem stundar nám í arkitektúr í Listaháskóla Íslands. „Þetta er eitt af áhugamálum hans," segir Kristinn.

Útidúr ætlar að fylgja plötunni eftir með útgáfutónleikum í Iðnó 17. nóvember. Sveitin stefnir á að fara til útlanda næsta sumar en ekkert er öruggt í þeim efnum. „Það er dýrt vesen að flytja svona stóra hljómsveit út." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.