Innlent

Mikið offramboð á svínakjöti í landinu

Formaður Svínaræktarfélags Íslands segir samdrátt vera í hverjum einasta mánuði hjá svínabændum.
Formaður Svínaræktarfélags Íslands segir samdrátt vera í hverjum einasta mánuði hjá svínabændum.
Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir samdrátt vera í hverjum einasta mánuði hjá svínabændum. Á síðustu tólf mánuðum hefur neysla á svínakjöti minnkað um 10,2 prósent en framleiðslan um 9,2 prósent.

„Það er mjög lágt verð í verslunum, oft langt undir framleiðslukostnaði,“ segir Hörður. „Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt í framleiðslu virðist enn vera framleitt of mikið, sem birtist í undirboðum á markaði.“

Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri hjá Norðlenska, segir alla svínarækt á Íslandi rekna með tapi.

„Stórvirkjanir í góðærinu drógu með sér innflutt vinnuafl sem kom frá löndum þar sem svínakjöt er algengt á borðum. Á þeim tíma var gríðarleg svínakjötsneysla í landinu en nú er það fólk farið,“ segir hann. „Fólk er líka farið að nýta matinn betur í dag og heildarneysla hefur minnkað.“

Sigmundur segir sölu á nautakjöti og kjúklingi vera að aukast á síðustu misserum og fólk sé að sækja meira í sveigjanlegri matvörur.

„Nautahakkið er mjög vinsælt, enda til margs nýtanlegt,“ segir hann. „Íslenskar landbúnaðarvörur eins og grænmeti og fiskur eru líka að sækja í sig veðrið.“

Salan á lambakjöti dróst saman um 5,3 prósent á síðustu tólf mánuðum, en sé litið til sölu í júní 2010 jókst salan um 35 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir þær niður­stöður virkilega ánægjulegar og greinilegt sé að málin séu á réttri leið.

„Útflutningur gengur vel og framleiðslan helst stöðug. Það hafa verið miklar sveiflur í innanlandssölunni, en þegar samdráttur er innanlands flytjum við bara meira út,“ segir hann.

Flutt voru út 170 tonn af kindakjöti í júní 2010, sem er 182 prósentum meira heldur en á sama tíma í fyrra. Byggja þessar tölur á gögnum um sölu á kjöti í verslunum, kjötvinnslum og veitingahúsum. sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×